Innlent

Lífvörður drottningar járnaður

"Ég var á hestasýningu úti í Englandi um helgina og þar mátti íslenskur knapi prísa sig sælan þegar einn af lífvörðum drottningarinnar ætlaði að heilsa honum að sjómannasið," segir Jónas R. Jónsson, umboðsmaður íslenska hestsins. Atvikið varð eftir sýninguna þar sem Íslendingar sköruðu fram úr og hlutu nafnbótina "Star of the Show" eða Stjörnur sýningarinnar. "Þarna sýndu úrvalsgóðir knapar íslenska hestinn og í lok sýningarinnar kom lífvarðasveit drottningar í fullum skrúða og myndaði göng með upplyftum spjótum sínum. Sigurvegarar í ýmsum flokkum voru kallaðir inn og að lokum var tilkynnt að stjarna sýningarinnar væri íslenski hesturinn sem okkur fannst mjög huggulegt. Seinna um nóttina voru íslensku knaparnir staddir á barnum á hótelinu. Þá kemur einn lífvarðanna og rýkur á Jóhann Skúlason, sem er heimsmeistari í tölti og kynntur sem slíkur á sýningunni. Vörðurinn ætlaði í hann og spurði jafnframt hvað hann héldi að þessir Íslendingar væru, að kalla sig heimsmeistara. Þeir væru bara fífl. Svo kæmu þeir bara og stælu sýningunni. Lífverðirnir voru ekki sáttir við það því þeir hefðu alltaf verið nefndir stjörnur sýningarinnar. Svo mikil var gremja lífvarðarins, að það þurfti að flytja hann í burtu í járnum. Þá áttuðum við okkur á því að lífverðir drottningar hafa alltaf fengið þennan titil þar til nú. Þá skildum við að þetta var miklu meira mál, þessi titill, heldur en við höfðum gert okkur grein fyrir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×