Innlent

Steyptist fram af hengiflugi

Tveir menn létust af slysförum um helgina. Ekið var á karlmann á fimmtugsaldri á Eyrarvegi á Selfossi um sexleytið í morgun og lést hann samstundis að sögn lögreglunnar að Selfossi. Slæm akstursskilyrði voru þegar slysið varð, rigning og rok og lélegt skyggni. Ökumann fólksbifreiðarinnar sakaði ekki. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu. Þá beið karlmaður um fertugt bana þegar jeppi hans fór fram af þverhníptri sandöldu í sunnanverðu Vonarskarði á sjötta tímanum í gærkvöld. Ökumaðurinn var einn í bílnum, en var í samfloti með þremur öðrum jeppum, á leið frá Þúfuveri í Gæsavötn. Fimm björgunarsveitir voru kallaðar út eftir að tilkynnt var um slysið til Neyðarlínunnar og fóru björgunarsveitarmenn á átta jeppum til aðstoðar, þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð til. Einar Brynjólfsson félagi í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu sem kom fyrst á vettvang segir að jeppamennirnir hafi verið búnir að fara einu sinni yfir Köldukvísl en þurft að fara yfir hana aftur þar sem hlykkur var á ánni á þessari leið. Maðurinn sem lést ók bifreiðinni sem var í fararbroddi. Hann ók eftir snjólausri sandöldu en sá illa fram fyrir sig og bifreiðin steyptist fram af hengiflugi ofan í ána og lenti á hvolfi. Félagar hans fóru þegar út í og komu taug í jeppann og gátu rétt hann af. Hann var hinsvegar mikið skemmdur og ekki hægt að opna dyrnar. Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn á sjöunda tímanum, með klippur var maðurinn þegar látinn. Þegar það vitnaðist sneri um helmingur björgunarsveitarmanna við og hélt aftur til byggða. Fjórir jeppar héldu áfram og komu að slysstað þegar þyrlan var nýfarin með lík mannsins. Maðurinn sem lést hét Stefán Reynir Ásgeirsson til heimilis að Barmahlíð 34 í Reykjavík. Hann var fjörutíu og tveggja ára og lætur eftir sig unnustu og þrjú börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×