Innlent

Samningur tekur gildi í áföngum

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur átt í viðræðum við forystu Verkalýðsfélagsins Hlífar vegna samnings um ræstingar í stofnunum og skólum bæjarins. Mikil óánægja hefur verið meðal ræstingafólks sem starfar hjá bænum, rúmlega hundrað manns, með samning sem bæjarstjórnin ætlaði að gera við einkafyrirtæki sem bauð lægst í verkið. Það taldi að samningurinn myndi bitna á launum og réttindum ræstingafólks. Bærinn hefði sparað 60 til 70 milljónir króna með samningnum. Á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku var samningurinn ekki afgreiddur eins og til stóð, en var vísað aftur til bæjarráðs þar sem málið var tekið til frekari skoðunar á fundi sl. fimmtudag. Rætt er um að samningurinn taki gildi í þremur áföngum, sá fyrsti strax en síðan komi aðrir hlutar hans til framkvæmdar fram á sumarið 2005, ef reynslan sýni að kjör ræstingafólks rýrni ekki. Bæjarráð vísaði málinu aftur til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þar sem það verður tekið til umræðu á þriðjudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×