Innlent

Ók yfir handlegg barns og stakk af

Ökumaður jeppabifreiðar ók yfir handlegg á barni  í Keflavík fyrr í vikunni og stakk af frá vettvangi samkvæmt vef Víkurfrétta. Lögreglan í Keflavík lýsir nú eftir ökumanninum og vill hafa af honum tal. Málavextir eru þeir að sjö ára stúlka var að hjóla eftir Skólaveginum síðastliðið þriðjudagskvöld en við gatnamót Háaleitis og Skólavegar missti stúlkan jafnvægið og datt í götuna. Í sömu mund var Nissan Patrol jeppa ekið um gatnamótin. Hjólbarði jeppans fór yfir handlegg stúlkunnar. Sá sem ók jeppanum virðist hins vegar ekki hafa orðið þess var og ók á brott af vettvangi. Stúlkan hlaut áverka á handleggnum en er óbrotin. Samkvæmt frásögn stúlkunnar var jeppinn gylltur að lit með gráum hliðum og svarta hlíf yfir varadekki. Vinkona stúlkunnar staðfestir að um Patrol-jeppa hafi verið að ræða. Lögreglan í Keflavík vill hafa tal af ökumanni jeppans eða heyra frá hugsanlegum sjónarvottum eða aðilum sem vita við hvaða jeppabifreið er átt. Síminn hjá lögreglunni er 420 2400.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×