Innlent

Lögreglan ætti að prófa smábíla

"Eitt helsta vandamálið er að búnaður lögreglubíla er það mikill orðinn að hann kemst illa fyrir í smærri bílum," segir Guðmundur H. Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Lögreglubílar á Íslandi eru flestir af stærri gerðinni og vekur athygli að það á líka við um höfuðborgarsvæðið. Víða erlendis eru lögreglumenn á smærri bifreiðum sem henta borgarumferð betur, eyða og menga minna og spara þannig talsverða fjármuni. Eðlilegt er að lögregluembætti noti mismunandi tegundir bifreiða vegna mismunandi verkefna sinna en margir telja að spara megi mikið með skynsamlegri kaupum en verið hefur. Ekkert lögregluembætti hér á landi notar reglulega smærri bíla en Opel Vectra, en slíkir bílar kosta frá tveimur milljónum króna. Lögreglan í Reykjavík notar slíkar bifreiðar talsvert en einnig er mikið um Volvo S80 sem eru helmingi dýrari. Slíkir bílar kosta allt að fimm milljónum króna. Þá kostar sú tegund mótorhjóla sem notuð er hjá Lögreglunni í Reykjavík einnig tæpar fimm milljónir. Öflug hjólin eru ekki notuð þar sem þau koma að hvað bestum notum, á þjóðvegum landsins. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir höfuðborgina varla samanburðarhæfa við erlendar borgir hvað þetta varðar. "Þar eru borgarkjarnar mun stærri en hér þar sem svæði hvers bíls er mikið stærra. Hér eru bílar sendir um alla borg eftir aðstæðum en sinna ekki eingöngu ákveðnum svæðum." Guðmundur H. Jónsson, telur hins vegar vel þess virði að prófa smærri bíla í borginni og síðan sé hægt að draga ályktanir. "Þetta hefur að sjálfsögðu mikið með starfsaðstöðu lögreglumannanna að gera. Það má færa fyrir því rök að bílarnir þurfi að vera af ákveðinni stærð, en mér þætti eðlilegt að eitthvert embættanna prófaði smábíl á borð við þá sem notaðir eru víða erlendis til að fá samanburðinn." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×