Innlent

Fékk verðlaun ársins

Fyrirtækið 3-Plus hf. fékk verðlaun ársins hjá Mattel, sem er stærsta leikfangafyrirtæki í heimi. Fyrirtækið hefur hannað og þróað leiktækið dvd-kids og InteracTV ásamt gagnvirkum fræðsluleikjum. Mattel á og rekur Fisher Price, sem selur, markaðssetur og dreifir InteracTV í öllum enskumælandi löndum. Árlega koma á markað yfir 200 nýjungar í leikföngum frá Mattel og hlaut InteracTV frá 3-Plus heiðursverðlaunin í ár. Jóhannes Þórðarson, markaðs- og þróunarstjóri 3-Plus, segir að þetta sé mikill heiður og um leið viðurkenning á því að 3-Plus sé á réttri leið. Samstarfið við Fisher Price sé gott og hafi tæki fyrirtækisins verið á lista yfir mest seldu vörur Fisher Price í Wal-Mart og Toys "r" Us frá því vörurnar fóru á markað í september. "Næst þegar við komum með nýjar vörur til þeirra er horft á það allt öðrum augum en ef við værum að byrja," segir hann. 3-Plus hefur á síðustu fjórum árum hannað og þróað þráðlaust leiktæki sem breytir venjulegum DVD-spilara í leikjavél. Tækið er skilgreint sem þroskaleikfang og er það notað með sérhönnuðum DVD-diskum og stýrispjöldum. Þegar hafa verið framleiddir 14 leikir sem byggðir eru á þekktum sögupersónum á átta tungumálum. Á næsta ári verða kynntar þrjár nýjar vörur en áætlað er að gefa út 12-14 leiki fyrir Evrópu. Í undirbúningi er svo dreifing í Asíu. 3-Plus var stofnað árið 1999. Hluthafar eru á þriðja tug og starfsmenn 12. Aðalskrifstofur fyrirtækisins eru í Reykjavík en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í Frakklandi og Danmörku. Framleiðsla fer fram í Asíu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×