Innlent

Byggja þyrfti nýja flugstöð

Til eru áætlanir um nýja byggingu norðaustanmegin við núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli þar sem þjónusta við áætlunarflug innanlands færi fram. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að vélar í innanlandsflugi hafi stöku sinnum þurft að lenda á vellinum, en þá hafi verið gripið til sértækra aðgerða þannig að þeir farþegar blönduðust ekki öðrum í millilandaflugi. Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, sem sér um rekstur innanlandsflugvalla í landinu, telur illframkvæmanlegt að hafa innanlandsflugafgreiðslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og taldi alveg ljóst að innanlandsflug yrði ekki flutt í skyndingu yfir á Keflavíkurflugvöll. "Það þyrfti að gera ráðstafanir út af Schengen. Svo er sú starfsemi sem fram fer í Leifsstöð ólík þeirri sem fram fer í hefðbundnu innanlandsflugi. Allir farþegar á Keflavíkurflugvelli sem komnir eru inn fyrir vopnaleit og annað eru komnir inn á lokað alþjóðlegt flugumferðarsvæði. Ef koma ætti innanlandsumferðinni þar inn þyrfti miklar tilfæringar og það myndi ekki gerast á nokkrum dögum eða vikum," sagði hann. "Í áætlunum sem bæði flugvallaryfirvöld og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa gert er gert ráð fyrir því að innanlandsflug gæti flust á Keflavíkurflugvöll frá Reykjavík. Enda væri óeðlilegt að gera ekki ráð fyrir þeim möguleika því sá flugvöllur er bara með starfsleyfi til ársins 2016," segir Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli. "Spurningin er svo bara hvernig þessir hlutir koma til með að líta út í framtíðinni, með tilliti til Keflavíkurflugvallar og samræmdrar samgönguáætlunar," segir hann og áréttar að ekki sé búið að ákveða neitt í þessum efnum. Björn Ingi segir að í áætlunum um nýju bygginguna sé einnig gert ráð fyrir að hún gæti líka tengst hugsanlegri járnbraut sem uppi hafi verið hugmyndir um að leggja fyrir nokkru. "Þetta voru svona framtíðarvangaveltur," segir hann, en telur ólíklegra að af lagningu járnbrautar milli Reykjavíkur og Keflavíkur verði eftir að tekin var ákvörðun um að tvöfalda Reykjanesbrautina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×