Innlent

Vill flytja sendiráðið

"Við erum komin á þann tímapunkt að það þarf að ræða það alvarlega við utanríkisráðuneytið að finna bandaríska sendiráðinu annan stað," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir verðandi borgarstjóri. Nágrannar sendiráðsins eru æfir vegna aukinna öryggisráðstafana í kringum sendiráðið og vilja að það sé flutt annað. Steinunn segist skilja áhyggjur íbúanna við Laufásveg. "Ástandið gengur ekki svona til lengdar." Pia Hanson, upplýsingafulltrúi sendiráðsins, segir starfsmenn sendiráðsins vilja flytja en það vanti frumkvæði frá Washington. Þá taki það tíma að finna nýja lóð fyrir sendiráðið. Steinunn Valdís bendir á að í gegnum tíðina hafi margar lóðir í útjaðri borgarinnar verið skoðaðar en alltaf vantað fé að utan. Í fyrra þrýstu hollensk stjórnvöld á bandarísk yfirvöld um að finna sendiráðinu í Haag annan stað af svipuðum ástæðum og þeim sem hér um ræðir. Steinunn segir ekki ákveðið hvort það sama verði reynt hér. "Við förum yfir málið innan borgarkerfisins eftir helgi og sjáum til hvað kemur út úr því." Full samstaða er um málið innan R-listans og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir sinn flokk fúsan til að ræða málið. Ekki náðist í Davíð Oddsson utanríkisráðherra vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×