Innlent

Vandræði í stafrænum heimi

Yfir tuttugu þúsund heimili hafa nú fengið nýjan, stafrænan myndlykil frá Digital Íslandi. En svo virðist sem á býsna mörgum þessara heimila gangi brösuglega að stilla hátæknitólið og að það valdi á köflum tómum vandræðum. Framtíðin í hljóði og mynd var loforðið sem fylgdi Digital Íslandi þegar því var hrundið úr vör. Og þó virðist sem nokkur hópur áskrifenda eigi í mestu vandræðum í stafrænum heimi, fái að því er virðist hvorki hljóð né mynd og eigi í basli með að fá aðstoð við að lagfæra vandann. Pálmi Guðmundsson, markaðsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins segir eigi að síður að verkefnið hafi gengið mjög vel í meginatriðum. Hann segir eðlilegt að ákveðin vandræði fylgi nýrri tækni fyrst um sinn, en verið sé að reyna að komast fyrir þau. Pálmi vill ekki meina að símakerfið sé að hrynja undan hringingum frá óánægðum viðskiptavinum. Það sé einfaldlega svoleiðis að þegar verið sé að senda út myndlykla í tugþúsundatali, sé eðlilegt að töluvert sé hringt inn vegna ákveðinna vandkvæða. Það hefði engu breytt þótt beðið hefði verið lengur með að fara af stað með hina nýju tækni. Sömu vandamál hefðu komið upp.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×