Innlent

Seinkun á stækkun

Háskólinn á Akureyri sóttist eftir því að fá um 150 milljónir á fjárlögum næsta árs til að halda áfram við þær nýbyggingar sem verið er að byggja á háskólasvæðinu við Sólborg. Þorsteinn Gunnarsson, rektor háskólans, segir að þess í stað séu skólanum veittar 90 milljónir. Það dugi til að ljúka þeim verkefnum sem eru í gangi núna en ekki til að hefja nýbyggingar eins og vonast hafði verið til. Húsnæðisskortur gæti því komið upp hjá háskólanum, sem í dag er með 1.500 nemendur. Áætlað er að þeim muni fjölga um 500 á næstu fimm árum. "Við verður þá bara að leysa þau mál, taka húsnæði á leigu, kenna lengra fram á daginn og þess háttar," segir Þorsteinn. Nú þegar er víða kennt, því auk Sólborgar er kennt í Þingvallastræti, í Oddfellowhúsinu og í verslunarhúsinu við Sunnuhlíð. "Ég er vongóður um að þessir fjármunir fáist á næstu árum. Við erum með ákveðið byggingaskipulag sem er búið að leggja mikla vinnu í og er hagkvæmt. Við teljum okkur vera með mjög gott dæmi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×