Innlent

Ósammála félagsmálaráðherra

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er algjörlega ósammála félagsmálaráðherra um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna. Formaðurinn segir að það eigi að endurskoða tekjustofnana oft og reglulega en ráðherra að sveitarfélögin verði að hemja útgjöldin og að ekki gangi að endurskoða tekjustofnana á nokkurra ára fresti. Samband íslenskra sveitarfélaga gekkst fyrir aukalandsþingi í dag. Árni Magnússon félagsmálaráðherra hélt þar ræðu, þar sem hann ræddi um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og sagði ljóst að verkefni yrðu ekki flutt frá ríki til sveitarfélaga nema báðir aðilar væru sammála um alla þætti málsins. Þá sagði hann ekki ólíklegt að hluti af rekstrarvanda sveitarfélaganna lægi í útgjaldaþenslu. Villhjálmur Villhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er ósammála og segist ekki vita hvað Árni hafi átt við. Útgjaldavandi hjá sveitarfélögum geti stafað af auknum kostnaði frá Alþingi í formi reglugerða. Þá sagði félagsmálaráðherra að í sínum huga væri það ljóst að leita verði leiða til að hemja útgjaldaaukningu sveitarstjórnarstigsins og að menn yrðu að gera sér grein fyrir því að ekki væri hægt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna á nokkurra ára fresti. Villhjálmur segist hins vegar ósammála því og það eigi einmitt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna með reglulegu millibili og jafnvel á hverju ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×