Innlent

Fengur að fá Mjöll-Frigg í Kópavog

Í næstu viku verður tekin í bæjarstjórn Kópavogs ákvörðun um framtíð verksmiðju Mjallar-Friggjar á lóð fyrirtækisins við höfnina á Kársnesi í Kópavogi. Gunnar I. Birgisson, formaður bæjarráðs, segir tillögur fram komnar um hvernig haga skuli starfseminni. "Við erum að lesa þær tillögur yfir og svo verður málið afgreitt til heilbrigðisnefndar sveitarfélagsins í næstu viku," segir hann. "Fyrirtækið er með leyfi í Reykjavík og fer eftir þeim öryggiskröfum sem þar voru settar." Gunnar segir vilja til þess að hafa fyrirtækið í Kópavogi, en það verði þá að fylgja þeim öryggiskröfum sem þar eru settar. Innan bæjarstjórnarinnar eru uppi raddir sem efast um að starfsemi þar sem hætta gæti verið á mengunarslysi eigi heima svo nálægt byggð, eins og raunin er á Kársnesinu. "Við getum náttúrlega ekkert verið á móti þessu ef fyllsta öryggis er gætt og hættan er engin. Þetta er fyrirtæki sem veltir milljarði á ári og er með tugi manna í vinnu og því fengur að hafa það," segir Gunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×