Innlent

Verndarsamtök leiði ekki umræðuna

Tryggja verður öryggi útflutningstekna í sjávarútvegi að mati Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Hann sagði í ræðu á Sjómannasambandsþingi í fyrradag að nýjar reglur um efnainnihald fisks gætu orsakað skyndilegt áfall í útflutningi. Ekki sé hægt að sjá fyrir hvenær fyrirtækjum, opinberum stofnunum eða öfgasamtökum detti í hug að setja fram nýjar reglur eða hræða almenning með röngum upplýsingum um skaðsemi efnainnihalds sjávarfangs. Því sé grundvallaratriði að hafa á reiðum höndum upplýsingar um efnainnihald fisksins. Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins hefur mælt innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum. Upplýsingarnar munu nýtast þeim  sem vinna við að selja sjávarafurðir  til að meta það hvernig afurðir standast  þau mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og öðrum viðskiptaþjóðum Íslendinga. Þá sagði Árni að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir 30 milljónum í þetta verkefni. Sjávarútvegsráðuneytið er þegar farið að undirbúa sig fyrir frekari umræðu um umhverfisáhrif fiskveiða. Verkefnið snýst um að finna út umhverfisáhrif þorskveiða. Að sögn Árna eru niðurstöðurnar í grundvallaratriðum þær að olían hafi mest áhrif á umhverfið en engar upplýsingar liggi fyrir um aðra þætti sem gætu skipt máli, svo sem áhrif veiðarfæra á hafsbotninn. Árni sagði hættu á að mat á umhverfisáhrifum verði leitt af öfgafullum umhverfissamtökum með fordóma í garð sjávarútvegsins. Slíkt gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarhag. Nýverið skipaði Árni nefnd sem á að skoða forsendur fyrir friðun einstakra hafsvæða. Nefndin á að skoða og skilgreina hvaða forsendur beri að leggja til grundvallar þegar teknar séu ákvarðanir um friðun viðkvæmra hafsvæða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×