Innlent

Raðir lítillækki ekki þiggjendur

Huga þarf að því hvaða áhrif það hefur á fólk að þiggja velferðarþjónustu frjálsra félagasamtaka fyrir jólin. Þetta segir Björk Vilhelmsdóttir, formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur. Hún segir að ef aðstoðin sé veitt þannig að hún lítillækki þann sem þiggur sé ekki verið að gera fólki gott. Til dæmis megi ekki skipuleggja útdeilingu aðstoðarinnar þannig að biðraðir myndist fyrir utan húsnæði þar sem hún fer fram. Stundum gangi þetta svo langt að biðraðir myndist þrátt fyrir að nægilegt rými sé innanhúss fyrir þá sem leita aðstoðar. Hún segir að þeir sem gefi sig út fyrir að stunda góðgerðarstarf verði að hugsa fyrst og fremst um þá sem þiggja aðstoðina og hvort hún sé uppbyggjandi. Mörg félög veita almenningi aðstoð fyrir jól og er talið að hún nemi tugum milljóna króna á ári. Björk segir að huga þurfi að því hvort nýta megi þetta fé á betri hátt með auknu samstarfi. Nú þurfi einstaklingar að leita á marga staði og endi í hálfgerðum ölmusuleiðöngrum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×