Innlent

Stysta ljósmyndasýning sögunnar

Stysta ljósmyndasýning Íslandssögunnar, eftir því sem næst verður komist, var við Reynisdranga í gær. Brim batt enda á sýninguna aðeins tólf mínútum eftir að hún hófst.  Sýninguna hélt Ragnar Axelsson ljósmyndari í samvinnu við Mál og menningu í tilefni af útkomu ljósmyndabókar sem hlotið hefur titilinn Andlit norðursins. Forsíðumynd bókarinnar er tekin í næsta nágrenni við Dyrhólaey og sýningin í fjörunni var haldin til heiðurs manninum á myndinni, Guðjóni Þorsteinssyni, bónda í Mýrdal. Guðjón fékk afhent fyrsta eintak bókarinnar við tilefnið.   Ragnar segir myndina hafa verið upphafið að sýningum sem hafi farið út um allan heim og því eigi hann Guðjóni mikið að þakka. Hann segir Guðjón líka hafa fengið hlutverk í auglýsingum og kvikmyndum út á myndina. Því sé þetta líklega ein af uppáhaldsljósmyndum sínum þó það sé reyndar ljósmynd morgundagsins hverju sinni. Myndirnar í bókinni hefur Ragnar tekið á síðustu fimmtán árum í þremur löndum: Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, og myndefnið er gjarnan fólk og lífshættir þess. Hann segir þetta það skemmtilegasta sem hann geri og þetta séu eiginlega hans málverk. Ragnar kveðst hafa allar myndirnar í svarthvítu meðal annars vegna þess að meiri vinna felist í því og þess vegna verði myndirnar meira eins og börnin manns.  Menn sáu hins vegar fljótt í gær að fjara er ekki sérlega heppilegur staður til langtíma sýningarhalds. Sýningin hafði ekki staðið nema í tólf mínútur þegar menn neyddust í snarhasti til að rífa myndirnar upp úr sandinum og flýja undan haföldunni. Þetta varð því líklega stysta ljósmyndasýning sögunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×