Innlent

Lækkun gjaldsins veltur á ríkinu

Það myndi engu breyta um veggjaldið um Hvalfjarðargöng þótt Spölur endurfjármagnaði erlend lán sín. Innlendar skuldir Spalar eru hins vegar við ríkissjóð þannig að það stendur upp á ríkið að skapa svigrúm til lækkunar veggjaldsins. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra greindi frá athugun Ríkisendurskoðunar á málefnum Spalar í gær og hafði upp úr skýrslu stofnunarinnar að með því að endurfjármagna erlend lán gæti fyrirtækið sparað vaxtakostnað. Eftir því sem fréttastofan kemst næst eru eftirstöðvar Spalar erlendis, í þremur myntum, u.þ.b. 2,8 milljarðar króna á 6,8% föstum vöxtum. Kæmi til endurfjármögnunar myndi kostnaður vegna uppgreiðslu þess láns nema 500-550 milljónum króna, þannig að við núverandi gengisaðstæður myndi kostnaðurinn éta upp allan sparnað af heldur lægri vöxtum. Ráðherra hafði einnig eftir Ríkisendurskoðun að með því að skuldbreyta innlendum lánum væri hægt að spara raunkostnað um 50 milljónir. Þau lán hefur Spölur að mestu frá ríkinu á 6% vöxtum auk verðtryggingar sem þýðir, í núverandi verðbólgu, eitthvað um 9% vexti. Sem sagt, það væri hugsanlegt að spara rekstrarkostnað Spalar um 50 milljónir á ári en það virðist fyrst og fremst velta á ríkinu, eða hvort ríkið sjálft vil lækkka vextina svo Spölur geti lækkað veggjaldið. Í skýrslunni munu heldur ekki vera gerðar athugasemdir við að Spölur haldi illa utan um reksturinn. Fréttastofan fékk skýrsluna ekki afhenta fyrir hádegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×