Innlent

Bilið aldrei verið breiðara

Bilið milli hinna tekjuhæstu og tekjulægstu á Íslandi hefur breikkað um helming á síðasta áratug og er nú meira en nokkru sinni áður. Ellefu þúsund tekjuhæstu Íslendingarnir hafa að meðaltali 22 sinnum hærri laun en ellefu þúsund tekjulægstu. Það tekur hina tekjulægstu því nær tvö ár að afla sér mánaðarlauna hinna tekjuhæstu. Þrátt fyrir að bilið milli tekjuhópanna sé að breikka hafa hinir tekjulægstu nú hlutfallslega hærri tekjur en fyrir tíu árum. "Stéttaskipting á Íslandi er að dýpka," segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands. "Það er varhugavert í jafn fámennu samfélagi og okkar, þar sem návígið við einstaklinginn er mikið. Ákveðin vanmáttartilfinning og öfund getur gripið um sig í samfélaginu, því fólk hefur tilhneigingu til að bera sig saman við aðra,“ segir Helgi. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir að það sé þekkt að tekjuójöfnuður vaxi þegar vel árar. "Tekjur þeirra tekjuhæstu hækka þá að jafnaði meira en þeirra tekjulægstu,“ segir hann. Nánar er fjallað um málið í F2, vikulegu tímariti sem fylgir Fréttablaðinu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×