Innlent

Þriðji hver skattgreiðandi hagnast

Þriðji hver skattgreiðandi hagnast á því að eignaskattur verði afnuminn. 60% þeirra sem græða á afnámi skattsins eru með innan við 200 þúsund krónur í mánaðarlaun og hagnast að meðaltali um 35 þúsund krónur á ári.  Samkvæmt tölum frá fjármálaráðuneytinu nam eignaskattur einstaklinga rúmum 2,4 milljörðum í fyrra. Tæplega 230 þúsund Íslendingar greiddu skatt í fyrra, þar af greiddi tæpur þriðjungur þeirra, eða rúmlega 67 þúsund manns, eignaskatt. 40 þúsund úr hópi þeirra sem tilheyra lægstu tekjuhópum samfélagsins greiða eignaskatt og nam hann samtals í fyrra rúmlega 1380 milljónum króna, eða vel rúmur helmingur alls þess eignaskatts sem innheimtur var í fyrra. Verði eignaskattur felldur niður á næsta ári, eins og stefnt er að í skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, hagnast þetta fólk að meðaltali um tæplega 35 þúsund krónur á ári. Sé litið á þá sem hafa hærri laun kemur í ljós að 36 prósent þeirra sem hafa á bilinu 200 til 500 þúsund krónur í mánaðarlaun hagnast á afnámi eignaskatts og nemur meðalhagnaður þeirra tæplega 34 þúsund krónum á ári. Mikill meirihluti þeirra sem hafa meira en hálfa milljón á mánuði greiðir eignaskatt. Þeir eru rúmlega 4000 talsins en eru hlutfallslega fáir miðað við hina sem hafa lægri laun, eða rúm 6% allra þeirra sem greiða eignaskatt. Þessi hátekjuhópur greiddi 246 milljónir króna í eignaskatt í fyrra, eða rétt rúm 10% alls innheimts eignaskatts. Hátekjuhópurinn hagnast að meðaltali um 58 þúsund krónur á ári við afnám eignaskattsins. Þessar tölur sýna því að hlutfallslega hagnast þeir mest á afnámi eignaskattsins sem lægstar hafa tekjurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×