Innlent

Skatttekjur aukast um 24 prósent

Bæjarstjórn Fjarðarbyggðar gerir ráð fyrir að afgangur verði af rekstri bæjarsjóðs á næsta ári að stórum hluta vegna aukinna skatttekna af fasteignum. Þetta kemur fram á fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2005. Rekstrartekjur aðalsjóðs eru áætlaðar 1.477 milljónir króna en rekstrargjöld 1.385 milljónir. Að teknu tilliti til fjármagnstekna verður afkoma sjóðsins jákvæð um 115 milljónir. Í forsendum fjárhagsáætlunarinnar er gert ráð fyrir því að íbúum Fjarðabyggðar fjölgi verulega á árinu en þar munar mest um íbúa í starfsmannaþorpi Fjarðaáls. Gert er ráð fyrir því að íbúar Fjarðabyggðar verði í lok ársins 2005 um 4.700 en þar af séu 1.200 íbúar í starfsmannaþorpinu. Þá aukast tekjur vegna fasteignaskatta nokkuð vegna hækkunar fasteignamats. Þetta veldur því að skatttekjur hækka um 264 milljónir króna eða um 24,2% á milli ára. Alls hækka tekjur allrar samstæðunnar um 393 milljónir króna og verða alls um 2,1 milljarðar króna. Heildargjöld samstæðunnar nema um 1,9 milljarði og fjármagnsgjöld 154 milljónum. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð sem nemur rúmum 30 milljónum sem er viðsnúningur miðað við árið 2004.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×