Innlent

Tugir kvenna heimilislausar

Ekki færri en tuttugu konur, og jafnvel fjörutíu, í Reykjavík eru heimilislausar, samkvæmt þarfagreiningu sem gerð hefur verið á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands Deildin opnaði í síðustu viku næturathvarf fyrir þessar konur, Konukot. Brynhildur Barðadóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeildinni, sagði heimilislausar konur vera mjög falinn hóp, sem erfitt er að ná til. Þær eru á öllum aldri, flestar þó líklega á aldrinum tuttugu til fimmtíu ára. Nær allar eiga þær það sameiginlegt að vera í fíkniefnaneyslu. Vísbendingar segja að heimilislausum konum fjölgi og þær sem bætast við séu úr yngri aldurshópum. Næturathvarfið Konukot er í Eskihlíð 4. Félagsþjónustan í Reykjavík lagði húsnæðið til. Athvarfið er opið milli 21 á kvöldin til 10 að morgni. Þar er þvotta- og hreinlætisaðstaða fyrir næturgesti, og að auki er boðið upp á létta máltíð. Sunnudagskvöldið 5. desember verða haldnir stórtónleikar til styrktar Konukoti. Þeir verða á Hótel Borg og koma þar fram fjölmargir þekktir listamenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×