Innlent

Slökkvistarfinu lokið

Slökkvistarfi á athafnasvæði Hringrásar við Sundahöfn er lokið og bíður slökkviliðsmanna nú mikið verk við að hreinsa næstum allan búnað sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur yfir að ráða. Nokkrir slökkviliðsmenn voru á vettvangi í nótt til að vakta svæðið og slökkva í glæðum þar sem þeirra varð vart. Formleg rannsókn á eldsupptökum er hafin en að sögn lögreglu eru sterkar vísbendingar um að eldsupptökin hafi orðið í hleðslutæki fyrir raflyftara en það var inni í skemmunni þar sem talið er að eldurinn hafi kviknað. Áætlað er að um tvö þúsund tonn af dekkjum hafi verið í haugnum sem kviknaði í. Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar aðstoðarslökkviliðsstjóra er ógjörningur að slá á allar vinnustundir vegna brunans. Um það bil 80 slökkviliðsmenn úr Reykjavík voru meira og minna að störfum í sólarhring, fjöldi lögreglumanna, björgunarsveitarmanna og Rauða kross liða. Þá lögðu ýmsir slökkviliðinu ómetanlegt lið, að sögn Jóns Viðars. Flugmálastjórn lagði til menn og tæki, Olíudreifing lagði til mikið af kvoðu til slökkvistarfsins, Reykjavíkurhöfn lagði til ýmsan búnað, ET-flutningar stórvirkar vinnuvélar og mannskap á þær og svo mætti lengi telja. Nú bíður slökkviliðsmanna mikið verk við að hreinsa upp allan búnað sinn og koma honum í fullkokmið lag á ný og taka saman og hreinsa þann búnað sem liðið fékk lánaðan. Þá liggur fyrir mikil hreinsun við Sundahöfn, langt út fyrir athafnasvæði Hringrásar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×