Innlent

Tók fjóra mánuði að svara bréfi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Hringrásar og bent á þá almannahættu sem gæti skapast kviknaði í háum dekkjahaug. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast hafa verið að vinna í málinu með forvarnadeild slökkviliðsins en það tók þá samt tæpa fjóra mánuði að svara bréfi þar sem slökkviliðsmenn bentu á hættuna. Einar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Hringrásar sendi fjölmiðlum yfirlýsingu vegna brunans fyrir skömmu. Þar segir hann félagið harma þann hörmulega eldsvoða sem varð á athafnasvæði félagsins við Klettagarða. Félagið hafi orðið fyrir miklu tjóni sem það var að mestu leyti tryggt fyrir. Þá vilja forráðamenn félagsins koma á framfæri sérstöku þakklæti til slökkviliðs og lögreglu og annarra sem unnu frábært starf við að ráða niðurlögum eldsins. Félagið harmar einnig þau óþægindi og röskun sem nágrannar bæði fyrirtæki og einstaklingar hafa orðið fyrir vegna brunans. Unnið verði að því að hreinsa svæðið um leið og slökkvistarfi ljúki. Í samtali við fréttastofu bætti Einar framkvæmdastjóri Hringrásar því við að fyrirtækið hefði unnið með forvarnardeild slökkviliðsins að því að bæta úr málum. Að öðru leyti var hann ekki tilbúinn að tjá sig um þær athugasemdir sem gerðar voru við starfsemi fyrirtækisins. Einar sagði fyrirtækið hafa starfsleyfi enda starfsleyfisskyld starfsemi. Þegar hann var spurður hvenær starfsleyfið rynni út sagðist hann hins vegar ekki vita það og ekki geta komist að því fyrir hádegi. Fréttastofan hefur ákveðnar heimildir fyrir því að starfsleyfi fyrirtækisins hafi runnið út í síðasta mánuði en hefur ekki fengið það staðfest hjá Umhverfisstofu og er því að sjálfssögðu mögulegt að leyfið hafi verið endurnýjað. Íslandstrygging er tryggingarfélag Hringrásar og segir Einar Baldvinsson framkvæmdastjóri Hringrás vel tryggða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×