Innlent

Kennsla með öllum tiltækum ráðum

Kennsla á að fara fram í öllum skólum í Reykjavík í dag. Fræðsluráð Reykjavíkur sendi skólastjórum boð um þetta í gær. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir að tíðindi gærkvöldsins bendi til þess að ástand í skólunum verði betra í dag en í gær, þegar aðeins um fimmtán prósent kennara mættu til starfa og kennsla féll víða niður. "Það verður allra leiða leitað til að komast hjá því að senda börn heim úr skólanum," segir Stefán. Hann segist ráðleggja fólki að mæta í skólann með börnum sínum og athuga hvernig staðan er ef engin skilaboð hafa borist frá skólunum. Hilmar Ingólfsson, skólastjóri Hofstaðaskóla í Garðabæ, segir að kennt verði í skólanum í dag og börnin eigi að mæta. Stefna skólaskrifstofu Garðabæjar sé að kennsla fari fram í grunnskólum bæjarins. Hann segir marga foreldra tilbúna til að koma og hjálpa. Auk þess séu skólaliðar og uppeldisfulltrúar til taks. Hilmar segir mjög þungt hljóð í kennurum og ljóst að margir þeirra treysti sér ekki til að koma til starfa. "Þeir fengu slæma útreið hjá ríkisstjórninni með lögum og nú dynja á þeim skammir og svívirðingar foreldra sem bæta ekki úr skák." Hanna Hjartardóttir, skólastjóri Snælandsskóla í Kópavogi, segist hafa heyrt það á starfsfélögum sínum að fleiri kennarar muni mæta til starfa í dag en í gær. Í Snælandsskóla verði tekið á móti börnunum en ekki sé vitað hvort fram fari full kennsla á öllum sviðum. Trúnaðarmenn kennara í Reykjavík hittust á fundi í gær þar sem farið var yfir stöðuna. Ólafur Loftsson, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, segist ekki geta svarað því hvernig mætingin verði hjá kennurum í dag en þeir hafi greinilega ekki treyst sér til að mæta í gær við núverandi aðstæður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×