Innlent

Litlu hærra en atvinnuleysisbætur

Skólaliðar grunnskóla Reykjavíkur mótmæltu því í dag að hafa enga hækkun fengið við nýtt starfsmat starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þeir segjast vera með rétt rúmar 100 þúsund krónur í mánaðalaun sem sé litlu hærra en atvinnuleysisbæturnar. Formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar segir það skárra en ekkert.  Hátt í eitthundrað skólaliðar mótmæltu því við húsakynni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar í hádeginu að þeir fengju enga hækkun launa í nýju starfsmati borgarinnar. Sjöfn Ingólfsdóttir, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur, og Jakobína Þórðardóttir varaformaður ræddu við skólaliðana úti á stétt. Þær báðust afsökunar á því að geta ekki boðið skólaliðum inn í húsakynni félagsins. Þær sögðu að 400 störf hefðu verið metin og að helmingur hefði ekki fengið hækkun en Sjöfn sagði að skólaliðar fengju hækkun í næsta mati að ári. Skólaliðar bentu á að á meðan þeir fengju enga hækkun hefðu stuðningsfulltrúar grunnskólabarna fengið átta launaflokka hækkun. Þeir sögðu að laun þeirra væru litlu hærri en atvinnuleysisbætur, eða rétt rúmar eitt hundrað þúsund krónur á mánuði. Þá varð formanni starfsmannafélagsins að orði: „Það er skárra en ekkert.“ Varla þarf að fjölyrða að undirtektirnar voru dræmar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×