Lífið

Mikilvægast í eldhúsið

Vaskur: Vaskur er eitt af því sem er ómissandi í eldhúsinu og er mikið notaður til margra hluta. Hafðu þetta í huga: + Stálvaskar eru sterkir og auðvelt að halda skínandi hreinum. + Vaskar úr postulíni og steyptir vaskar eru líka álitlegur kostur í eldhúsið. + Vaskur sem er húðaður er óhentugur í uppvaskið vegna stáláhalda eldhússins sem rispa húðina. Skápahurðir: Hönnun eldhússkápa er auðvitað smekksatriði en gæðin skipta miklu og af nógu er að taka: + Melamín og lamínat eru slitsterkustu efnin. + Málaðar og lakkaðar skápahurðir þurfa að vera unnar með sterku og endingargóðu lakki. Þær þurfa að þola högg og hnjask barnanna. + Spónlagður krossviður er níðsterkur vegna trefjanna í viðinum. + Gegnheill viður er slitsterkur, þolir högg og heimilislíf fjölskyldunnar. Best er að velja óbæsaðan við. Höldur: Höldur eru vinsælar enda úrvalið mikið og fallegar höldur geta breytt svip eldhússins til muna. Höldur eru fljótar að kámast og fá á sig klíning þegar unnið er með fituríka matvöru og mikilvægt er að þrífa þær strax svo litamunur komi ekki með tímanum eða fitan festist ekki á. Borðplötur: Margir einblína á skápana þegar valin er eldhúsinnrétting en borðplatan er ekki síður mikilvæg fyrir heildarmyndina. Hún er það sem mest er notað í eldhúsinu og það sem slitnar fyrst. + Borðplata úr gegnheilum viði sem reglulega er olíuborinn er góður kostur. Mikilvægt er að trassa ekki olíuáburð svo vatnsskemmdir í kringum vask hendi ekki. Sápa og lútur lýsa viðinn, en gera auðveldara fyrir að halda borðplötunni fallegri. Lakk er ekki skynsamlegur kostur á gegnheilan við þar sem eldhúsáhöld eru fljót að rispa upp lakkið og skemma plötuna. + Lamínat er góður kostur fyrir borðplötur í eldhúsi; slitsterkt og auðvelt að halda fallegu og hreinu. + Borðplata úr steini er gljúp og þarf reglulega að vera olíuborin. Marmari er of viðkvæmur í eldhús, en granít er frábær kostur, þó í dýrari kantinum sé. + Stálborðplötur hafa verið að ryðja sér til rúms sem vinsælt efni í eldhúsið. Það er sterkt, hlýtt og hefur gott grip.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×