Innlent

Framsókn slíðri sverðin

Fulltrúar á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi, sem haldið var í Borgarnesi um helgina, hvöttu þingflokkinn til að slíðra sverðin. Í ályktun þingsins segir að þingflokkurinn sé hvattur til að leysa þann ágreining sem uppi hafi verið innan hans þannig að allir þingmenn flokksins hafi eðlilega aðstöðu til starfa. Við sögðum frá því í gær að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hefur verið látinn fara úr öllum þingnefndum vegna trúnaðarbrests, hefði sagt í ræðustól á þinginu að hann ætlaði ekki að láta hrekja sig úr flokknum. Tólf af tuttugu og sex framsóknarfélögum í kjördæminu höfðu þá harmað brotthvarf Kristins úr nefndum í sérstökum ályktunum. Spurður hvort ekki sé erfitt fyrir flokkinn að starfa fyrst svona mikið ósamlyndi sé um þetta mál segir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, að það sé alltaf erfitt að standa í málum sem þessum. Hann segir hægt að ræða það frekar hvort þingflokkurinn breyti afstöðu sinni.   Kristinn var nýlega skipaður formaður Tryggingaráðs þrátt fyrir trúnaðarbrestinn. Spurður hvort það hafi verið tilraun til að sætta sjónarmið í flokknum segir Halldór að gengið hafi verið frá þessu á milli hans, Kristins og heilbrigðisráðherra á sínum tíma, þ.e. áður en brotthvarf Kristins úr nefndunum kom til.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×