Innlent

Þórólfur getur starfað áfram

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir Þórólf Árnason hafa staðið sig vel í embætti borgarstjóra og hefur fulla trú á því að hann geti sinnt starfinu áfram. Hann segir Þórólf ekki pólitískan borgarstjóra og að þeir sem hafi ráðið hann til starfa beri hina pólitísku ábyrgð. Engin ákvörðun liggur fyrir um hvort Þórólfur Árnason verður látinn víkja úr embætti borgarstjóra. Halldór Ásgrímsson segir að formenn samstarfsflokkanna komi ekki að þeirri ákvörðun. Hann ber Þórólfi Árnasyni hins vegar vel söguna. Skýrsla Samkeppnisstofnunar sé mjög alvarleg og dómur yfir þeim fyrirtækjum sem hlut eigi að máli en ekki dómur yfir einstökum starfsmönnum. Halldór segir alveg ljóst að þeir sem eru í forystu beri aðalábyrgðina. „Þórólfur Árnason hefur að mínu mati verið mjög góður borgarstjóri og hann hefur viðurkennt að hafa gert mistök í þessu máli. Hann verður að sjálfsögðu að gera það upp við sína samvisku, og þeir sem styðja hann í bogarstjórninni, hvort hann geti haldið störfum sínum áfram eða ekki,“ segir Halldór sem kveðst hafa fulla trú á því að Þórólfur geti sinnt starfi borgarstjóra áfram. Halldór segir málið alfarið á forræði Reykjavíkurlistans og formenn flokkanna hefðu ekki verið kallaðir til samráðs. Hann segist treysta fulltrúum Framsóknarflokksins í borginni fyllilega til þess. Líf Reykjavíkurlistans virðirst hanga á því að það takist að sætta sjónarmið í þessu máli. Önnur stjórnmálahreyfing fyrr á öldinni fór einnig flatt á olíu, þótt með allt öðrum hætti væri - nefnilega Kommúnistaflokkur Íslands. „Á gröf hins látna blikar bensíntunna. Frá British petroleum company“ orti Steinn Steinarr í minningu þess flokks. Halldór vill ekki fullyrða neitt um það hvort samstarf R-listans sé búið að vera ef Þórólfur verði látinn víkja. Það komi í ljós á næstu dögum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×