Innlent

Öskufallið raskaði flugi

Öskufall vegna eldgossins í Grímsvötnum hefur raskað innanlandsflugi í dag. Öskufallsins hefur orðið vart víða um austan- og norðaustanvert landið og eru búfjáreigendur hvattir til að fylgjast grannt með fréttum af gosinu. Áhrifa öskufallsins gætir víðar en hér á landi því það hefur líka truflað flug í Norður-Noregi og Svíþjóð. Öskufallið í dag varð þess valdandi að tvær flugvélar á leið til Akureyrar urðu að lenda á Sauðárkróki fyrr í dag og vélar á leið til Hafnar og Egilsstaða þurftu að taka á sig krók og fara suður fyrir gosið. Tvær flugvélar fóru svo alla leið til Akureyrar eftir hádegið með sjónflugi. Ekkert var flogið þangað eftir klukkan þrjú. Öskufalls varð vart á fjölmörgum stöðum í dag og í nótt. Þar á meðal eru Axarfjörður, Fnjóskadalur, Þistilfjörður, Aðaldalur, Mánarbakki, Kelduhverfi, Langanes, Vopnafjörður og Mývatnssveit. Á Akureyri og Egilsstöðum var einnig tilkynnt um öskufall en það virðist hafa verið í minna lagi.  Í gær varð mikið öskufall í Möðrudal þar sem naumlega tókst að bjarga sauðfé og hrossum, áður en snjór varð kolsvartur af ösku. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir hefur hvatt búfjáreigendur til að fylgjast grannt með fréttum af gosinu og ráðleggur þeim að hýsa búfé, verði vart við öskufall, vegna hættu á flúoreitrun. Áhrifa gjóskunnar gætir út fyrir landssteinana því að flug í Norður-Noregi og Svíþjóð truflaðist aðeins í dag vegna öskufallsins. Að sögn Heimis Más Péturssonar, upplýsingafulltrúa flugumferðarstjórnar, hefðu áhrifin orðið mun meiri á alþjóðaflug ef vindar hefðu staðið öðruvísi en var í dag. Búist er við því að vindáttin snúist í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×