Innlent

Fastar tekið á varnarmálum

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að sigri George Bush í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, eins og allt útlit sé fyrir, þýði það að hann muni taka fastar á málum, þar á meðal varnarmálum Íslands.  Forsætisráðherra segir ekkert benda til annars en að George Bush hafi unnið afgerandi sigur í forsetakosningunum. Halldór telur að miðað við stöðuna, eins og hún hafi verið skömmu fyrir hádegi, sé ljóst að Bush fari með sigur af hólmi í óvissuríkinu Ohio en endanleg úrslit liggi þó ekki fyrir. Halldór telur að sigur Bush kunni að koma mörgum utan Bandaríkjanna á óvart en ljóst sé að staða forsetans sé mun sterkari en áður. Ráðherrann átti von á því að þetta myndi standa tæpar en eftir að ljóst varð að Bush hafi unnið á Flórída skýrðist ýmislegt. Halldór segir að nánast allt þetta ár hafi farið í kosningabaráttuna og því ýmsar ákvarðanir beðið, þ.á m. varðandi varnarsamninginn við Ísland. Nú fer hins vegar í hönd tími þar sem ekki þarf að vera neitt hik, t.d. vegna þess að ef þetta verða úrslitin hefur forsetinn ákveðnara umboð þjóðarinnar en áður. „Ég á von á því að þetta verði til þess að hann taki fastar á ýmsum málum, þar á meðal varnarmálum Íslands,“ segir Halldór. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×