Menning

Ferðamannaparadís

Líkt og í Singapore, er æði margt framandi sem ber fyrir augu á Bali. Menningin er önnur, fólkið er annað og jafnvel lyktin er allt önnur. Víða má sjá litlar körfur sem eru sérútbúnar daglega af Balinesum sem gjafir til guða þeirra, en um 95% Balinesa eru hindúatrúar þrátt fyrir að muslimatrú sé algengasta trú íbúa Indónesíu. Á Bali eru miklar andstæður og þar er að sjá allt frá betlandi börnum upp í lúxus hótel þar sem hvergi er kusk að finna. Uppi í fjallaþorpunum er lífið ólíkt því sem gerist á helstu ferðamannastöðunum en þar eru meiri rólegheit og minna áreiti en í borgunum. Náttúran er einnig fjölbreytt en Bali er eldfjallaeyja og ber landslagið ýmiss merki þess.

Bali hefur lengi verið vinsæl ferðamannaeyja einkum vegna hagstæðs verðlags fyrir vestræna ferðamenn sem geta leyft sér að lifa eins og kóngar og drottningar á meðan dvöl þeirra stendur. Strendurnar á Bali eru þekktar fyrir falleg sólsetur og öldurnar teljast hagstæðar til brimbrettaiðkunar sem er vinsælt sport hér um slóðir. Vinsældir Kuta sem áningarstaðs hafa aukist á ný eftir sprengingarnar sem urðu á vinsælu diskóteki 12. október 2002, en eftir þær fækkaði komum vestrænna ferðamanna til Kuta töluvert. Enn hefur ekkert verið byggt þar sem diskótekið var en hinum megin við götuna er búið að reisa minnisvarða um fórnarlömb sprengingarinnar þar sem nöfn hvers og eins eru talin upp. Það er undarleg tilfinning að standa og horfa á lista af nöfnum þeirra látnu einstaklinga sem voru í sínu mesta sakleysi að skemmta sér í fríinu sínu, á eyju sem er annáluð fyrir jafn mikla fegurð og raun ber vitni en jafnframt friðsamlega og brosmilda íbúa. Því miður erum við stöðugt minnt á að kannski erum við hvergi óhult fyrir hryðjuverkum, ekki einu sinni á eyju sem minnir um margt á paradís á jörðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×