Lífið

Íslensk munsturhönnun

Í safnbúð Þjóðminjasafnsins er að finna skemmtilegar vörur eins og púðaver og diskamottur með handþrykktu íslensku mynstri. Tvær ungar konur hafa bæði hannað og þrykkt þessa gripi. "Vörulínan sem við erum með til sölu í safnbúð Þjóðminjasafnsins samanstendur af tveimur mynstrum sem við höfum hannað eftir fyrirmyndum úr íslenskum textíl varðveittum á Þjóðminjasafninu," segir Nanna Eggertsdóttir textílhönnuður sem hannaði vörulínuna ásamt Þórdísi Baldursdóttur textílhönnuði. "Mynstrin útfærðum við í þessa vörulínu sem samanstendur af innanhússtextílum, gjafakortum og veggmyndum." Þær stöllur voru samskóla í Listaháskóla Íslands þar sem þær byrjuðu að vinna með gamlan íslenskan textíl. "Við unnum saman munsturbók með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna en hún inniheldur myndir af mynstrum sem við höfum hannað eftir fyrirmyndum af fjórum textílum af safninu, eins og af rekkjurefli, söðuláklæði og dúk frá 18. og 19.öld," segir Þórdís og bendir á að bókin sé ekki til sölu enn sem komið er en sé til sýnis í safnbúðinni.
Púðaver kr. 4.400-
Veggmynd kr. 4.200.
Þórdís Baldursdóttir og Nanna Eggertsdóttir hafa hannað mynstur eftir fyrirmyndum úr íslenskum textílum og handþrykkt meðal annars á púða og diskamottur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×