Innlent

Kennarar í verkfalli í námsferð

Kennarar Ingunnarskóla leggja næsta föstudag í sex daga námsferð til Bandaríkjanna þrátt fyrir kennaraverkfall. Þeir segjast hafa blessun Kennarasambandsins til fararinnar. Að sögn stjórnenda skólans hefur undurbúningur fararinnar staðið í meira en eitt ár og ekki hægt að hætta við hana. Nokkur kurr er meðal foreldra vegna þessa. Ætlun kennaranna er að kynna sér skólastarf í Minneapolis samkvæmt því er fram kemur á heimasíðu skólans. Alls fara þrjátíu og fimm í ferðina: skólastjórar, kennarar, skólaliðar, stuðningsfulltrúar, umsjónarmaður, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur og sérfræðingur svo. Guðlaug Sturlaugsdóttir skólastjóri gat ekki veitt fréttastofu viðtal í dag vegna anna en hún sagði þetta ekki auðvelda ákvörðun. Hins vegar væri ekki annað hægt en að fara í ferðina, ellegar tapa stórum upphæðum sem lagðar hafa verið í undirbúning og flugfargjöld sem ekki fást endurgreidd. Foreldrar sem fréttastofa hefur rætt við segja þetta skjóta skökku við. Um sé að ræða vinnuferð í miðju verkfalli. Kennarar veiti fáar undanþágur í kennaraverkfalli nema þá þegar þeir sjálfir þurfi að fara til útlanda. Samkvæmt dagskrá Ingunnarskóla verða heimsóttir minnst átta skólar en laugardagurinn næsti og sunnudagurinn eru frjálsir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×