Innlent

Grípa hefði átt inn í strax

Félagsmálastjórinn í Reykjavík segir að grípa hefði átt inn í kennaraverkfallið strax og að það sé á sameiginlegri ábyrgð ríkisstjórnar, sveitarfélaga og samfélagsins alls. Það yrði ekki látið viðgangast í siðmenntuðum löndum að börn væru án kennslu svo vikum skipti. Hann segir að alvarlegar afleiðingar verkfallsins komi ekki að fullu fram fyrr en börnin hefja nám að nýju. Félagsþjónustan hefur fylgst sérstaklega grannt með börnum og þá einkum unglingum borgarinnar eftir að verkfall grunnskólakennara skall á, til dæmis hvort að krakkar hópist óeðlilega mikið saman og einnig með áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri segist hafa orðið vör við merki breytinga í barnflestu hverfunum. Merki eru um áfengisneyslu auk óhóflegrar tölvunotkunar, sem og ásókn í spilakassa. Forvarnarnefnd Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að veita auknu fjármagni til þessa eftirlits og núna verður farið út í hverfin síðla dags og á virkum dögum. Lára segir að jafnvel hafi heyrst af vímuefnaneyslu unglinga seinnipart dags.   En þrátt fyrir að þegar megi sjá afleiðingar kennaraverkfallsin í breyttri hegðun unglinga þá óttast félagsmálastjóri að afleiðingarnar komi ekki almennilega í ljós fyrr en skólastarf hefst að nýju. Lára segir verkfallið ekki geta gengið lengur. Henni finnst að allir eigi að leggjast árarnar til að ljúka verkfallinu, hvort sem það eru ráðamenn innan ríkis eða sveitarfélaga eða bara íbúarnir í landinu, og segir að það yrði ekki látið viðgangast í siðmenntuðum löndum að börn væru án kennslu svo vikum skipti. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×