Innlent

Lokatilraun til samninga brást

Sveitarfélögin geta ekki mætt kröfum kennara. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitarfélaganna í viðræðunum, segir telft hafi verið á tæpasta vað. Þeir hafi engin ráð sem kalli á fund með kennurum næsta hálfa mánuðinn. Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands segir að við lok þessarar deilu sé tími til kominn að kennarar semji sér við hvert sveitarfélag um laun: "Ég trúi því og vona að næst þegar við komum að samningaborðinu séum við ekki að tala við launanefnd sveitarfélaganna heldur menn sem hafa faglega og pótitíska ábyrgð." Fundi samninganefndanna lauk þegar ljóst varð að hugmyndir sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari lagði fram nægðu ekki til sátta: "Ég taldi mig fara bil beggja og vonaðist að menn gætu gert þær að umræðugrundvelli. Það varð ekki niðurstaðan." Í vor var kennurum boðin samningur sem hljóðaði upp á 18 prósenta kostnaðaraukningu launatengdra gjalda. Þeir höfnuðu tilboðinu og voru tilbúnir að loka samningi á um 30 prósenta hækkun. Hugmynd ríksisáttasemjara var á því bili. Birgir Björn segir launanefndina hafa verið tilbúna að ganga að tillögu ríkissáttasemjara ef hún leiddi til samnings. "Hugmyndin felur í sér miklu meiri kostnað en við vorum áður tilbúnir að axla. Hún var í okkar huga lokatilraun. Það er sannarlega hryggilegt að við skulum standa upp eftir þennan dag án samnings." Eiríkur segir hugmynd ríkissáttasemjara virðingaverða: "Hún var ekki nægjanleg til að við myndum ganga til samnings." Ásmundur hefur boðað til fundar 2. nóvember. Samninganefndirnar geti hisst fyrr telji þær ástæðu til. Ríkissáttasemjari segir það langa hlé sem hann hafi boðað til sé ekki ákall á lagasetningu á verkfall kennara.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×