Innlent

Einhverf börn á leið í skólann

Reykjavíkurborg hefur látið undirbúa nýjar umsóknir fyrir um tíu einhverf grunnskólabörn í borginni. Stefán Jón Hafstein formaður Fræðsluráðs Reykjavíkur segir að farið verði að kröfum kennara. Allir þeir 20 til 30 sem komi að kennslu barnanna verði kallaðir út og fái laun samkvæmt ráðningarsamningi. Gunnar Gíslason skólafulltrúi Akureyrar segir þá ekki sitja eftir. Vandi fjölskyldna fatlaðra sé gífurlegur. Hann spyr af hverju Kennarasambandið hafi ekki fyrr gefið út hvernig standa ætti að umsóknum undanþága? "Þá væri löngu búið að leysa mál fatlaðra barna," segir Gunnar og bætir við: "Við þurfum að vita hve mikið við getum látið kennarana starfa í verkfallinu því þeir kenna sumum nemendum ekki meira en tvo tíma í viku." Það verði skoðað og lausn fundin með hagsmuni barnanna í huga. Stefán segir að fyrst og fremst hafi verið einblínt á að leysa mál einhverfra barna. Línurnar fyrir aðra fatlaða nemendur hafi ekki verið lagðar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×