Innlent

Teflt á tæpasta vað

Formaður samninganefndar sveitarfélaga segir teflt á tæpasta vað með tilboði í kennaradeilunni þar sem gengið sé lengra en í nokkrum öðrum samningum. Hann sakar kennara um óbilgirni í kjaraviðræðunum. Formaður Félags grunnskólakennara vísar því á bug. Næsti samningafundur í deilunni er ekki fyrr en á mánudaginn kemur. Staðan í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga er vægast sagt alvarleg. Eftir að samninganefndir funduðu hvor í sínu lagi með ríkissáttasemjara í dag var ljóst að pattstaða í kjaradeilunni er alger. Meira en vika líður á milli samningafunda því næsti samningafundur hefur ekki verið boðaður fyrr en á næsta mánudag. Áfram verða því um 45 þúsund börn að hanga heima hjá sér og bíða eftir því að samningar náist. Útlit er hins vegar fyrir að þau verði að bíða lengi. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaga, segir þreifingar hafa átt sér stað síðastliðna viku sem hafi verið kennurum mikilvægar. Hann segir ekki mögulegt að ganga lengra að kröfum kennara í þessari lotu. Birgir vill ekki gefa upp krónutölu í því samhengi. Fyrir nokkru buðu sveitarfélögin grunnskólakennurum 18,6 prósenta launahækkun miðað við október árið 2008 en ekki var fallist á það. Birgir segir þau svo hafa gert tillögu sem feli í sér "mun meiri kostnaðarbreytingu" fyrir sveitarfélögin en það. Honum finnst kennarar ekki hafa sýnt það í kjaraviðræðunum að þeir séu reiðubúnir að slá af kröfum sínum. Þess vegna séu þeir í þeirri stöðu sem þeir eru í í dag. Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara, vísar því á bug. Hann segir kennara þvert á móti hafa lýst yfir miklum samningsvilja og meðal annars dregið úr kröfum. Hann segir aðeins eina lausn í málinu: meiri peninga í pakkann.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×