Innlent

Framsókn stoppar matarskattslækkun

Fátt bendir til þess að matarskattur verði lækkaður þrátt fyrir að "bullandi þverpólitískur vilji sé til þess" eins og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar orðar það. Össur er flutningsmaður tillögu þess efnis að matarskattur verði lækkaður úr 14 í 7%. Tveir stærstu stjórmálaflokkar sem tveir einir myndu hafa meirihluta á Alþingi börðust fyrir því fyrir kosningar að lækka matarskattinn og fulltrúar vinstri grænna og frjálslyndra hafa líka verið hlynntir málinu í umræðum á Alþingi. Framsóknarflokkurinn fékk rúm 17% atkvæða í síðustu kosningum. "Það er bara einn flokkur sem stoppar þetta, Framsóknarflokkurinn" segir Össur. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra hefur þannig ítrekað bent á andstöðu Framsóknarflokksins við þetta mál. "Það er ágreiningur um virðisaukaskattinn" sagði Geir við kynningu fjárlagafrumvarpsins. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins segist þó ekki útiloka lækkun matarskattar ef til þess gefist "svigrúm" eins og hann orðar það. Hann segir skattalækkana-áform stjórnarflokkanna hins vegar liggja fyrir. Hann segist að stjórnarflokkarnir hafi gengið frá þriggja ára langtímaáætlun og þar sé ekki gert ráð fyrir lækkun matarskattar í alls 20 milljarða skattalækkunum. " 4% lækkun tekjuskatts ein sér kostar að minnsta kosti 16 milljarða, eignaskattur lækkar um 3 milljarða og erfðafjárskattur um einn milljarð og því er augljóst að lækkun virðisaukaskatts er ekki á dagskrá. Halldór Ásgrímsson segir: "Við erum ekkert endilega á móti því en þetta er spurning um svigrúm. Ef það skapast meira svigrúm í ríkisfjármálum þá kemur ýmislegt til greina. Við gætum lækkað matarskattinn, en það hefur líka verið talað um stimpilgjöldin sem mörgum þykja óréttlát og aðflutningsgjöld sem leggjast á ýmsar vörur og félag iðnrekenda hefur lagt sérstaka áherslu á. "


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×