Lífið

Fylgdarþjónusta Handlagins

"Fylgdarþjónustan er hugsuð fyrir þá sem standa í íbúðarkaupum og vilja fá hlutlausan fagmann með sér til að meta fasteignina áður en kauptilboð er gert," segja Ýmir Björgvin Arthúrsson og Sæmundur H. Sæmundsson, eigendur fyrirtækisins Handlaginn sem sérhæfir sig í þjónustu og ráðgjöf fyrir fasteignaeigendur. "Þetta er ein stærsta fjárfesting flestra og er mikilvægt að fólk kaupi ekki köttinn í sekknum," segja þeir Ýmir og Sæmundur. "Fylgdarsveinar Handlagins, sem allir eru sérfræðingar með mikla reynslu og þekkingu, koma með fólki að skoða þá íbúð sem það hefur hug á að kaupa, þeir spyrja réttu spurninganna og meta ástand íbúðarinnar. Auk þess gefa þeir góð ráð varðandi samningagerðina og aðstoða fólk við að meta hvaða verð er sanngjarnt fyrir eignina," segja Ýmir og Sæmundur og bæta því við að einnig geti þeir lagt mat á hugsanlegan kostnað ef til viðgerða eða breytinga á fasteigninni kemur. "Hver skoðun er skráð og ef til einhverra eftirmála kemur þá er allt á skrá hjá okkur." Segja má að þjónusta Handlagins snúist að miklu leyti um að allir komi fram með hreint borð þegar að kaupunum kemur. "Við bjóðum einnig þeim sem hafa hug á að selja upp á ástandsskoðun þar sem sérfræðingur vinnur ítarlega skýrslu um ástand íbúðar og hægt er að leggja hana fram þegar til sölu kemur," segja þeir Ýmir og Sæmundur. "Við viljum vekja athygli á að þetta kemur öllum til góða og ekki síst fasteignasalanum. Við höfum nú þegar náð góðu samstarfi við fasteignasala og fengið jákvæð viðbrögð þar sem þetta fyrirbyggir vandamál og eftirmála fyrir alla aðila," segja þeir Ýmir og Sæmundur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×