Innlent

Hallar undan fæti í lýðræðisumræðu

"Upp á síðkastið hefur hallað undan fæti varðandi lýðræðislega umræðu og frjáls skoðanaskipti í Framsóknarflokknum. Þingflokkurinn hefur gengið mjög hart fram gagnvart Kristni H. Gunnarssyni fyrir að vera ekki á sömu línu og þingflokkurinn," segir Einar Pálsson, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg. "Það er mikill hiti í mönnum vegna þessa. Kristinn er eini talsmaður stórs hluta almennra flokksmanna. Öll umræða og frjáls skoðanaskipti eru forsenda og grundvöllur þess lýðræðis sem við teljum okkur búa við. Það er óhæft að flokkur í ríkisstjórn ætli að kæfa niður alla umræðu," segir Einar. "Ég hef verulegar áhyggjur af því ef þetta eru skilaboðin sem þingflokkurinn er að senda sveitarstjórnarmönnum Framsóknarflokksins um allt landi. Er þetta dagskipunin, að nú eigum við að hreinsa úr öllum ráðum og nefndum þá sem eru ekki sammála flokksforystunni?" spyr Einar. "Þetta hefur ekki verið hugsað til enda. Eigum við bara að henda mönnum á dyr?" spyr hann jafnframt. Einar segist hafa orðið var við verulegar áhyggjur meðal flokksmanna. Hann bendir á að til að mynda hafi Íraksmálið ekki verið rætt innan flokksins, heldur hafi einungis verið tilkynnt um ákvörðunina eftir að hún hafi verið tekin. "Ég lít þannig á, að nema annað komi fram og kalla ég eftir svörum frá þingmönnum Framsóknarflokksins um þetta, eigum við að gera eins og Stalín gamli? Er þetta það lýðræði sem menn eru að kalla eftir?" spyr hann. Hann segir að það sé alvarlegt mál ef það sé orðin viðtekin venja að allir sem hafa einhverja skoðun verði teknir úr sambandi. "Það verður einungis ein lína, flokkslínan, sem kemur bara frá einum eða tveimur mönnum. Þá er engin þörf fyrir landsfund. Það þarf bara senda tilkynningar og láta vita hvaða ákvörðunum á að fylgja," segir Einar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×