Innlent

Skaðleg áhrif á fötluð börn

Verði lengra rof á skólagöngu fatlaðra barna getur það haft varanleg áhrif á færni þeirra, segir Tryggvi Sigurðsson, sviðstjóri á Greiningarstöð ríkisins og doktor í sálfræði; sérfræðingur í fötlun barna. "Í sumum tilfellum er líklegt að áhrifin séu óveruleg en í mörgum tilfellum tel ég að verkfallið geti haft skaðleg áhrif og það til frambúðar," segir Tryggvi. Hann segir rangt að öll börnin vinni upp missinn með tímanum og mikilvægt sé að þau komist sem fyrst í skóla. "Rof á meðferð einhverfra barna getur til dæmis haft þær afleiðingar að erfitt verði að ná upp fyrri færni barnanna, hvað þá að bæta við hana," segir Tryggvi. Hann segir ekki síður geta orðið erfitt að bæta það gríðarlega álag sem verði á fjölskyldur fatlaðra barna við hið óvænta rof í skólagöngu barnanna. "Eftir því sem álagið er meira á fjölskyldurnar verður hegðun barnanna erfiðari," segir Tryggvi. Kjaradeila kennara og sveitarfélaga bitni mest á fjölskyldum fatlaðra barna. "Staða fjölskyldnanna er vægast sagt skelfileg í verkfalli kennara. Börnin fara ekki að vinna. Ekki er hægt að setja þau í pössun til ættingja eða skilja þau ein eftir heima," segir Tryggvi. Undanþágunefnd kennara og sveitarfélaga hyggst hittast í dag og fara yfir þrjár nýjar umsóknir, þrjár endurnýjaðar, fjórar sem frestað var á síðasta fundi og eina sem frestað var vegna ónógra upplýsinga.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×