Innlent

Börn í dagvistun í grunnskólanum

Verkfallsstjórn Kennarasambands Íslands gerir alvarlega athugasemd við fyrirhugaða notkun Súðavíkurhrepps á grunnskólanum undir dagvistun barna. Börnunum verður boðið í skólann frá átta til tólf á hádegi í verkfalli kennara. Erla Helga Sveinbjörnsdóttir, trúnaðarmaður grunnskólakennara í Súðavík, segir að gripið verði til aðgerða verði hugmynd sveitarstjórans samþykkt í bæjarstjórn. Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, vill láta á það reyna hvort sveitarfélagið hafi umráðarétt yfir húsnæði skólans á meðan á verkfalli kennara stendur. Hann segir að ákveðið hafi verið á fundi með heimamönnum að reyni kennarar að koma í veg fyrir dagvistun barnanna verði málið sent fyrir félagsdóm. "Staðan okkar hér í Súðavík er önnur en hjá öðrum sveitarfélögum, þá sérstaklega þeim stærri, þar sem skólinn okkar er eina aðstaðan sem við höfum undir skipulagða starfsemi fyrir börn. Í mörgum sveitarfélögum er húsnæði sem búið er að virkja undir æskulýðsstarfsemi, íþróttaiðkun og skipulagða starfsemi af ýmsum toga. Við erum ekki með húsnæði undir svona starfsemi hér," segir Ómar. Erla segir að hugmyndin hafi komið grunnskólakennurum í Súðavík á óvart: "Ég geri mér grein fyrir því að hörgull er á húsnæði en ég veit ekki hvort algerlega er búið að grandskoða hvort ekkert annað húsnæði komi til greina."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×