Innlent

Enginn bæjarstjóri mætir

Enginn forystumanna stærstu sveitarfélaga landsins ætlar að mæta á fund sem Kennarasambandið hafði boðið þeim á í dag til að útskýra fyrir þeim sjónarmið kennara. Formaður Félags grunnskólakennara segir deiluna í hnút og ekki útlit fyrir að neitt uppbyggilegt verði á borðinu á fundi deilenda með ríkissáttasemjara á morgun. Kennarasambandið hefur boðið bæjarstjórum stærstu bæjarfélaga landsins á sinn fund klukkan þrjú í dag. Tilgangur fundarins er að útskýra fyrir þeim sjónarmið kennara og kröfur þeirra í kjaraviðræðum við samninganefnd sveitarfélaga. Nú þegar þrír tímar eru til fundarins er ljóst að ekkert verður af fundinum, þar sem svör forystumannanna við fundarboðinu hafa öll verið á einn veg, að sögn Finnboga Sigurðssonar, formanns Félags grunnskólakennara. Það er, að málið sé upp á forræði launanefndar sveitarfélagana og því muni bæjarstjórarnir ekki mæta til fundarins. Spurður hvernig megi túlka áhuga- eða viljaleysi forystumannanna segir Finnbogi að það sé erftitt að gera. Kennarasambandið muni samt jafnvel leita annarra leiða til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá. Finnbogi segir ekki útlit fyrir að neitt uppbyggilegt verði á borðinu á fundi deilenda með ríkissáttasemjara á morgun og deilan sé því enn í hnút.  Hægt er að hlusta á viðtal við Finnboga Sigurðsson úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×