Innlent

Skógarstígur fyrir hjólastóla

Um síðustu helgi voru opnaðir skógarstígar í Haukadalsskógi sem sérstaklega eru gerðir með aðgengi hreyfihamlaðra í huga. Stígarnir eru vel færir hjólastólum, breiðir og hæðarmunur eins lítill og mögulegt er. Í Haukadalsskógi, steinsnar frá Geysi og Gullfossi, er nýtt ferðamannasvæði og ráðgert að halda áfram með lagningu stíga sem eru á flatlendi í Haukadal. Gerð stíga sem færir eru hreyfihömluðum er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar á Suðurlandi og Skógræktar ríkisins hófst á sumarið 2002 og var lokið við fyrsta áfanga nú í sumar. "Markmið er að gera öllu fólki mögulegt að skoða íslenska skóga, líka þeim sem aðeins geta ferðast um í hjólastól," segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi. Almennt á fólk í hjólastól þess ekki kost að ferðast um skógarstíga vegna þess hve yfirborð þeirra er gróft, þeir mjóir eða halli of mikill. Helstu styrktaraðilar verkefnisins eru Pokasjóður, Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, Ferðamálaráð, Landgræðslusjóður, Bændasamtök Íslands og sumarvinna Landsvirkjunar. Þá unnu jafnframt nemendur Menntaskólans að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi við stíginn í sjálfboðavinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×