Innlent

Aftanákeyrslum fjölgar

Aftanákeyrslum hefur fjölgað á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eftir breytingar sem þar voru gerðar á akstursljósum í fyrrahaust, að því er fram kemur í nýjum tölum frá tryggingafélaginu Sjóvá-Almennum. Þá hefur einnig fjölgað árekstrum sem verða þegar ökumenn skipta um akrein inni á gatnamótunum og veltir tryggingafyrirtækið upp þeirri spurningu hvort gul blikkandi ör akstursljósanna kunni að rugla þá. Í fyrra voru sett upp beygjuljós sem eru í gangi á kvöldin og næturnar en blikka gul yfir daginn. Þá var gerð betri aðgreining fyrir gangandi vegfarendur, með grindverki og tvískiptum gönguljósum. "Eftir þær breytingar hafa ekki verið skráð slys á gangandi eða hjólandi vegfarendum," segir Einar Guðmundsson, forvarnarfulltrúi hjá Sjóvá-Almennum. Aftanákeyrslur eru nú 68 prósent allra tjóna við gatnamótin í stað 63 prósenta áður. Svonefndum vinstribeygjutjónum hefur hins vegar fækkað töluvert, úr því að vera 23 prósent allra tjóna niður í 16 prósent. "Alvarlegustu slysin hafa átt sér stað, annars vegar á rauðu ljósi og hins vegar þegar tekin er vinstri beygja í veg fyrir umferð sem kemur á móti," segir Einar. Tölurnar sýna einnig að slösuðum hefur fækkað verulega, úr 17 á tímabilinu september 2002 til ágústloka 2003, í 10 frá því í september í fyrra og til ágústloka nú. Einar segir óhætt að yfirfæra tölur fyrirtækisins á heildina miðað við markaðsstöðu, en Sjóvá er með um þriðjungshlutdeild á tryggingamarkaði. Þannig má gefa sér að eftir breytingar slasist nú árlega um 30 manns á gatnamótunum í stað 50 áður. Einar bendir þó á að ískyggilegt sé hversu mjög þeim fjölgar sem slasast við akstur á rauðu ljósi, úr 10 prósentum í 30 prósent af heildarfjölda. Hann áréttar þó að tímabilið sé stutt og því vegi hvert slys þungt í tölunum. Þá bendir hann á að slysum hafi almennt fækkað um 17 prósent á höfuðborgarsvæðinu á árinu. Hafi fólk umferðaröryggis- og forvarnarsjónarmið í huga segir Einar að taka ætti gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem fyrst í mislæg gatnamót. "Þarna krossast meginumferðarstraumarnir," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×