Innlent

Auknar kröfur um heilbrigði

Fyrsta október þarf að bólusetja alla hunda og ketti gegn hundaæði sem flytja á til landa á Evrópska efnahagssvæðinu. Um mánaðamótin taka gildi nýjar reglur varðandi útflutning hunda og katta. Hingað til hafa flest lönd bara gert kröfu um almennt heilbrigðisvottorð auk þess sem dýrið hefur þurft að vera ormahreinsað og auðkennt með varanlegu merki og hundaæðisbólusetningar einungis krafist vegna flutnings til Bretlands. Á vef yfirdýralæknisembættisins kemur fram að ekki verði tekið tilllit til stöðu Íslands sem er hundaæðis-frítt land. Þá gera Bretland, Írland, Svíþjóð og Noregur að auki kröfu um að magn hundaæðismótefna í blóði sé mælt. Eftirleiðis þurfa dýraeigendur að huga að undirbúningi flutnings til annarra landa með góðum fyrirvara í samráði við dýralækni, en sérstaka undanþágu yfirdýralæknis þarf til að kaupa og nota hundaæðisbóluefni. "Dýrin skulu eftir sem áður vera örmerkt eða eyrnamerkt og meðhöndluð gegn sníkjudýrum og nota skal sérstök vottorðaeyðublöð sem eru útgefin af ESB," segir í tilkynningu yfirdýralæknis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×