Innlent

R-listinn ábyrgur fyrir slysum

Það ætti löngu að vera búið að gera mislæg gatnamót við Miklubraut og Kringlumýrarbraut að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. "Niðurstaða könnunarinnar kemur mér því ekki á óvart því þetta eru fjölförnustu gatnamót landsins þar sem áttatíu til níutíu þúsund bílar fara um á hverjum degi," segir Vilhjálmur. "Ef R-listinn ætlar að halda því til streitu að velja ekki besta kostinn verður að gera hann ábyrgan fyrir þeim umferðarslysum sem við getum komið í veg fyrir. R-listinn tók þetta út af skipulagi 1996 og setti þetta aftur inn 2001. Það er greinilegt að hugur fylgir ekki máli og nú stillir hann verkefnunum upp hvoru gegn öðru sem er rangt." Vilhjálmur segir að í vegaáætlun frá 2002 til 2006 sé gert ráð fyrir fjárframlögum til Sundabrautar sem og til byggingar mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Í áætluninni sé tekið fram að framkvæmdum við mislægu gatnamótin verði hraðað sem kostur er. Vilhjálmur segir að auðvitað verði til bóta að laga gatnamótin með fjölgun akreina og beygjuljósa en það sé hins vegar ekki framtíðarlausn. Slík lausn minnki umferðartafir um 15 prósent og fækki umferðaróhöppum um 30 til 50 prósent. Hann segir að ef gerð verði mislæg gatnamót minnki umferðartafir um allt að 70 prósent og umferðaróhöppum fækki um allt að 80 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×