Innlent

Ódýrara dreifikerfi en Símans

Lítil fjarskiptafyrirtæki segjast fullfær um að taka þátt í að koma upp dreifikerfi á landsbyggðinni, á skemmri tíma og á ódýrari hátt en Landssíminn.  eMax er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur á undanförnum árum byggt upp dreifikerfi, eða þráðlaust breiðband, sem flutt getur Internet, símaþjónustu og sjónvarp. Mikið hefur verið rætt um ADSL-væðingu Símans á landsbyggðinni í tengslum við fyrirhugaða sölu á fyrirtækinu. Það kerfi er keyrt um koparvíra og kostnaður við að koma slíku kerfi á um land allt er sagður hlaupa á milljörðum. Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri eMax, segir að innan við tvö ár tæki að setja upp senda sem gætu þjónustað meginþorra landsbyggðarinnar um þráðlaust breiðband. Fyrirtækið hefur komið upp sendum meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, og í Borgarfirði og sums staðar í samvinnu við sveitarstjórnir sem taka þátt í kostnaðinum. Stefán segir fyrirtækið geta boðið viðskiptavinum sínum sambærilega þjónustu og Síminn og segir þráðlaust breiðband bæði ódýrara og hagkvæmara í dreifbýli en ADSL. ADSL takmarkist við um 3-5 kílómetra frá símstöð og þeir sem séu svo óheppnir að búa lengra en það frá næstu símstöð geti ekki notið þjónustunnar. Dragið í sendingum eMax er hins vegar 25-30 kílómetrar að sögn Stefáns. Fyrirtækið Snerpa, sem notar svipaða tækni og eMax, hefur byggt upp kerfi á Vestfjörðum. Stefán segir ekkert því til fyrirstöðu að smærri fjarskipafyrirtæki taki að sér að byggja upp og þjónusta dreifikerfi á landsbyggðinni. Honum finnst að umræðan um einkavæðingu hafi verið alltof einsleit



Fleiri fréttir

Sjá meira


×