Innlent

Þjóðleikhúsráð mælir með sex

Þjóðleikhúsráð mælir með sex umsækjendum um starf þjóðleikhússtjóra en ráðinu ber, lögum samkvæmt, að veita menntamálaráðherra umsögn um umsækjendur. Þeir sem koma til greina að mati ráðsins eru: Árni Ibsen, Hafliði Arngrímsson, Kjartan Ragnarsson, Kristín Jóhannesdóttir, Tinna Gunnlaugsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Þjóðleikhúsráð á að fjalla rækilega um allar umsóknir um starfið og horfa sérstaklega til menntunar umsækjenda á sviði lista og staðgóðrar þekkingar þeirra á starfi leikhúsa. Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að ráðið hafi verið einróma í niðurstöðu sinni og er einnig tekið fram að mælt sé með áðurnefndum einstaklingum úr hópi margra hæfra umsækjenda. Átján umsóknir bárust um starfið. Menntamálaráðherra er óbundinn af umsögn þjóðleikhúsráðs en skipað verður í embættið fyrir áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×