Innlent

Myndi valda óþarfa þenslu

Mjög óskynsamlegt væri hjá ríkinu að ráðast í framkvæmdir við Sundabraut á næsta ári að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskólans. R-listinn hefur lýst því yfir að vilji sé til þess hjá borgaryfirvöldum að hefja framkvæmdir við Sundabraut jafnvel strax á næsta ári. Sundabrautin hefur þannig verið sett efst á forgangslista stórframkvæmda í Reykjavík og gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut slegið á frest. Fyrir liggur að Sundabrautin mun kosta átta til tólf milljarða króna, allt eftir því hvaða leið verður valin. "Þó Sundabrautin sé arðsöm framkvæmd þá ber að fresta henni í því efnahagsástandi sem við erum í núna," segir Tryggvi Þór. Hann segir að framundan sé hagvaxtarskeið með auknum kaupmætti og nauðsynlegt sé að hafa hemil á opinberum framkvæmdum ef verðbólgan eigi ekki að fara af stað. "Ef farið verður út í þessa framkvæmd mun það auka enn frekar á þensluna í þjóðfélaginu og gera hagstjórnina erfiðari en ella." Tryggvi Þór segir að ef valið standi milli Sundabrautar og mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut, sem sé framkvæmd upp á þrjá milljarða sé mun skynsamlegra út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði að fara í framkvæmdir við mislægu gatnamótin fyrst. "Ég tel nú reyndar að það eigi að bíða alveg með þetta eins og útlitið er núna." Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, tekur í sama streng og Tryggvi Þór varðandi efnhagsleg áhrif Sundabrautar. "Það er alveg ljóst að í því efnahagsástandi sem er núna þá myndi Sundabrautin ýta undir þenslu í þjóðfélaginu. Einkaneysla er mjög mikil og á sama tíma er verið að boða skattalækkanir þannig að það er augljóst að einhvers staðar verður að spyrna við. Framkvæmd upp á tíu til tólf milljarða á næstu þremur til fjórum árum myndi hafa slæm áhrif ef ríkið myndi ekki draga saman seglin annars staðar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×