Innlent

Kanadískir sjóliðar á Íslandi

Sjö fyrrverandi sjóliðar, úr kanadíska flotanum, sem var bjargað úr sjávarháska, fyrir 60 árum, heimsóttu höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar í dag. Tundurspillir sjóliðanna fórst í Viðey í aftakaveðri árið 1944. Sjóliðarnir eru hingað komnir til að minnast þess að sextíu ár eru liðin frá því íslenskur skipstjóri bjargaði þeim og tæplega 200 félögum þeirra, frá bráðum bana. Þeir minnast einnig fimmtán félaga sinna, sem þá hlutu vota gröf. Kanadiski tundurspillirinn Skeena strandaði á Tanga, í Viðey, í ofsaveðri í september árið 1944. Einar Sigurðsson, skipstjóri á Aðalbjörginni, sýndi þá einstæða sjómennsku og fádæma þrek, þegar hann brimlenti landgöngupramma, kom línu um borð í tundurspillinn, og stóð svo í ísköldum sjónum upp í háls, meðan verið var að draga 198 sjóliða á land. Kanadisku sjóliðarnir segjast aldrei gleyma þessu afreki. Þeir segja að sér hafi tekist að koma línu á milli skipsins og lands. Einar hafi staðið upp að háls í köldum sjónum og dregið mennina í land. Þeir segjast vera hér til að minnast Einars Sigurðssonar, sem hljóti að hafa verið einstakur maður og þeir væru ekki hér ef hans hefði ekki notið við. Örlög tundurspillisins Skeena voru hernaðarleyndarmál í áratugi, en fyrir afrek sitt var Einar Sigurðsson sæmdur einni æðstu orðu bretaveldis MBE, eða Member of the British Empire.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×